top of page

Ferðin okkar

Nemendur í 7. bekk ásamt umsjónakennurum lögðu af stað frá Árbæjarskóla rétt fyrir klukkan níu mánudagsmorguninn 1. júní.  Stemmingin í hópnum var góð enda tilhlökkunin mikil og fengum við að heyra sögur af nemendum sem lítið höfðu sofið þar sem spennan reynist mörgum erfið.

 

Eftir um tveggja og hálfs tíma akstur komum við að Skólabúðunum í Reykjaskóla og stuttu seinna mætti Dalvíkurskóli á svæðið.  Eftir að okkar nemendur höfðu komið sér fyrir í Grund og nemendur Dalvíkurskóla í Ólafshúsi tók við skipulögð dagskrá sem átti eftir að standa út vikuna.

 

Nemendum beggja skóla var blandað saman í þrjá hópa sem á meðan ferðinni stóð fóru í gegnum stöðvar sem báru heitin Íþróttir, Undraheimur, Sveit og saga, Bjarnaborg og Byggðasafn.  

 

Í frítímanum gátu nemendur farið í sund, leiki, spil og spjallað saman. Kvöldvökur voru þrjú fyrstu kvöldin og síðasta kvöldið var einnig haldið diskótek.  

Boðið var upp á morgunmat, hádegismat, síðdegishressingu, kvöldmat og kvöldhressingu sem nemendur nýttu sér ávallt vel enda þörf fyrir næringu þegar mikið er um að vera.

Ferðinni lauk við Árbæjarskóla um klukkan hálf þrjú föstudaginn 5. júní.

 

Óhætt er að segja að ferðin hafi staðið undir væntingum.  Nemendur skemmtu sér hið besta og voru sjálfum sér og skólanum til mikils sóma.



Halldór B. Ívarsson og Sigrún J. Grettisdóttir

umsjónakennarar 7. bekkjar Árbæjarskóla

bottom of page